
Ta ta tataaaaa.... ta ta tata...... ta ta tatídadíaríríraríariaíraáaaaaaaaa.....
Ó hvað ég hló mikið inni í mér (og ábyggilega upphátt líka!!!!!) síðasta sunnudagsmorgun þegar ég sat hérna ein á skrifstofunni og borðaði brauðið mitt. Heill blöðungur fullur af auglýsingum eftir tilvonandi tengdadætrum og –sonum. Þannig er nefnilega mál með vexti að á Indlandi eru hjónabönd í langflestum tilfellum ákveðin af foreldrum. Þegar á giftingaraldurinn kemur byrjar leitin og endar oftast stuttu seinna.

En þið, kæru lesendur og duglegu athugasemdendur (?) hugsið ábyggilega... hvernig í ósköpunum gengur þetta fyrir sig? Jú, það skal ég segja ykkur frá! Þetta er allt þaulskipulagt og háþróað!
Fyrsta atriðið er auðvitað, þegar krakkakvikindið fer að nálgast síðasta söludag, hér er það oftast um miðjan þrítugsaldur, er að setja auglýsingu saman, þar sem koma þarf fram trúarbrögð (mikilvægast, sko), hvert það á uppruna sinn að rekja, hæð (og stundum þyngd), húðlitur (hér þykir flottast að vera með hvíta húð.... vei, vei... draugaliturinn minn loksins inn!!!), nám, starfsreynsla og stundum, ef um er að ræða stúlku, hvort hún sé dugleg í eldhúsinu og heimilisleg almennt séð! Já og það er alltaf rætt um stúlkur og drengi, þrátt fyrir að fólk sé kannski að nálgast þrítugsaldurinn! Nú til dags fá “börnin” í sumum tilfellum að velja á milli nokkurra fenglegra kosta en annars er hinn aðilinn bara ákveðinn af foreldrunum. Minnist bloggfærslu frá henni Guðnýju vinkonu minni í Japan, fyrir nokkrum árum en þá var hún trainee eins og ég á Indlandi og fékk boð frá ungum herramanni um að foreldrar þeirra hefðu samningaviðræður!!!! Sá hefur verið aldeilis liberal.... össss
Auglýsingarnar eru svo flokkaðar niður á skipulagðan hátt, eftir héraði eða fylki, tungumáli, stétt eða trúarbrögðum. Þannig að ef við tökum Spóluna sem dæmi þá væri myndi hennar auglýsing hljóma einhvernveginn svona:
27 ára, mjög, mjög ljós, kristin stúlka frá Snæfells-og Hnappadalssýslu, doctor physiotherapist frá HÍ, húðlöt og vitagagnslaus í eldhúsinu leitar að hentugum herramanni á svipuðum aldri með svipaðan bakgrunn. Verður að þéna nóg til að eiga fyrir kokki og ræstingadömu´.
Svo er símanúmer og netfang til að hafa samband og hefja samningaviðræður.
Spurning hvort að auglýsingunni yrði ekki svo smellt undir Snæfells-og Hnappadalssýslu-dálkinn. Auðvitað væri alveg fráleitt að Spólan giftist einhverjum frá Reyðarfirði, ég meina hallóóó..... allt annar bakgrunnur, jafnvel önnur mállýska og hvað þá með trúarbrögðin (eru þau ekki álkennd þeim megin?)!!!

Auðvitað verður maður samt að taka tillit til þess að Indland er í raun mörg lönd í einu risalandi. Ef maður ferðast á milli fylkja þarf maður að komast inn í annað tungumál, vera viðbúinn því að maturinn sem manni fannst svo góður þarna sé bara ekki til hérna og menningin er allt önnur líka! Hér gerir það öll samskipti og flutninga auðveldari séu brúðhjón frá sama fylki.
Í tímariti sem kom inn um lúguna í vikunni var áhugaverð grein um konur frá Punjab héraði sem giftar voru indverskum mönnum á Englandi.
Bara svona smá fróðleiksmoli um Punjab en það er fylki norðarlega á Indlandi þar sem flestir eru Sikh-ar. Sikh-ism eru trúarbrögð sem eiga uppruna sinn að rekja til gúrús, Guru Nanak á 15. öld, og var meginstefna þeirra að mótmæla stéttakerfinu og Brahmönum (prestunum). Heilaga rit þeirra er Guru Granth Sahib og er upprunalega eintakið af bókinni geymt í gullna hofinu í Amritsar og komið fram við það eins og lifandi mannveru, bókinni gefið að borða og hún svæfð á milli þess sem lesið er upp úr henni allan liðlangan daginn. Flestir karlmennirnir skerða hvorki hár sitt né skegg og ganga með túrban frá unga aldri (ungu strákarnir með svona snúð framan á kollinum... mér finnst það frekar dúlló!) og þeir heittrúuðu ganga í víðum nærfötum, með sverð, stál armband og greiðu til að greiða hárið síða.

Meirihluti kvenna í þessu fylki eru velmenntaðar sem þýðir að fjölskyldur þeirra eru milli eða hástéttar. Í fylkinu er mikil pressa á að eignast syni, líkt og um flest allt Indland m.a. vegna heimamundar, og er hlutfall fæðinga drengja og stúlkna um 1000:700. Þetta skapar náttúrulega mikið ójafnvægi og neyðast því drengirnir þaðan oft til að giftast stúlkum úr öðrum fylkjum.... sem skapar mikla togstreitu. Fylkið er líka þekkt fyrir að margir íbúanna kjósa að flytja (þeir sem eru menntaðir flytja frekar), og er talsverður fjöldi þeirra búsettur m.a. í Englandi og í Bandaríkjunum. Í gegnum foreldra-ákveðin hjónabönd (arranged marriage) eru mörg tilfelli þess að drengir frá Punjab búsettir í Englandi kvænist stúlkum þaðan sem kannski hafa aldrei út fyrir héraðið, hvað þá landið komið. Þær eru eins og áður segir vel menntaðar, oft kannski mun meira drengirnir, komnar í ókunnugt land og ekki með neitt bakland. Tengdamæðurnar sem öllu stjórna eiga það til að fara mjög illa með þær, bæði með andlegu og líkamlegu ofbeldi sérstaklega ef þær eignast ekki barn fljótlega eftir giftingu og ef þær eignast barn en það er stúlka, og eru í sumum tilfellum að reyna að hrekja þær í burtu til að sonurinn geti gifst aftur og fjölskyldan fengið annan heimanmund. Í úthverfi London eru sjálfsvíg þeirra, þar sem þær kasta sér fyrir hraðlestir, orðið svo mikið vandamál að búið er að girða fyrir teinana og þar sem farþegunum er hleypt inn standa verðir. Ekki svo gott mál....

Alltaf þegar ég kem inn á nýtt heimili er byrjað á að spyrja mann að nafni og hvaðan maður komi. Síðan fylgir á eftir hvort maður sé giftur og þegar svarið er nei þá hvort maður eigi kærasta. Indverjum finnst líka fáránlegt er að á Íslandi séu ástarhjónabönd normið. Að ég geti bara átt kærasta, búið með honum, eignast barn, hætt með honum og allt án þess að ráðskast nokkuð við foreldra mína finnst þeim fráleitt. Kannski er það það! Foreldrum er jú í flestum tilfellum í mun um að anginn þeirra sé ánægður og hamingjusamur og flestum finnast barnabörn ekkert nema dásamleg. Auðvitað reyna þau því að velja einhvern sem hentar vel en einnig þarf að gæta að heiðri fjölskyldunnar.
Jæja kæra genamengi (foreldrar).... nú er röðin komin að ykkur að velja fenglega kosti og senda mér listann (alveg óþarfi að setja hann inn á kommentakerfið)... veit að mamma bíður spennt með lista jafnlangan og óskalistann minn fyrir jólin þegar ég var lítil.... ;o)
Þangað til næst...
Knús og karrý.... og kannski smá kúmen!
Spólan
p.s. Tótla og Gummi fá sérstakar hamingjuóskir með prinsinn frá Spólunni!!!