föstudagur, 4. apríl 2008

Himnaríki og helvíti – ferðasaga partur I

Varanasi, borg Shiva, sem gegnir hlutverki tortímandans í hinni heilögu þrenningu hindúasiðs, er ein heilagasti staður hindúa. Borgin er nefnd eftir ánum Varuna og Asi þar sem hún stendur á ármótum þeirra, við upptök hinnar heilögu á Ganges eða Ganga. Sagan segir að gyðjan Ganga hafi komið að himnum ofan eftir miklar fortölur og af miklu offorsi en kraftur hennar hafi minnkað þar sem hún þurfti að fara í gegnum matt og skítugt hár Shiva (nk dreadlocks). Á myndum er Ganga teiknuð sem ljós á hörund, með hvíta kórónu á höfðinu, sitjandi á krókódíl. Ég get nú ekki verið sammála þeirri myndrænu líkingu þar sem fljótið er einstaklega skítugt, grágrænt að lit og hefur fólk verið varað við því að baða sig upp úr því þar sem bakteríuflóran er um 1,5 milljón bakteríur í hverjum 100 ml (talað er um að vatn sem í lagi sé að baða sig upp úr eigi að hafa innan við 500 á hverja 100ml!). Enda kannski ekki skrítið þegar maður sér hvað er þvegið upp úr vatninu... meira um það síðar.

Það er einstaklega “andleg” upplifun að vera í Varanasi. Þangað flykkjast hindúar til að þvo burt syndir sínar og biðjast fyrir snemma morguns og þangað koma þeir líka til að deyja, því að í trúarbrögðunum segir að deyji hindúi í borginni brjóti hann sífellda hringrás endurholdgunar. Meðfram árbakkanum eru hallir og hof gömlu konunganna sem flestum er búið að breyta í asram (held að besta þýðingin á íslensku sé klaustur þó að þau séu eflaust tengd kristinni trú) þar sem fólk getur komið, beðist fyrir, hugleitt og búið í einhvern tíma. Nú og svo eru auðvitað mýmörg gistiheimili og hótel sem uppfylla þarfir hippalegra, jafnt sem hvítflibba, ferðalanga.


KONUR TIPPLA NIÐUR ÞREPIN

Árbakkanum er skipt niður í þrep eða ghat, í allt um 80 talsins, og hefur hver ghat sín einkenni. Flestar eru notaðar til þvotta en einnig eru nokkrar brennslu ghat-tir þar sem lík eru brennd fyrir augum almennings. Við ákváðum einn morguninn að rífa okkur upp kl. 5 (Matteo var nú ekki alveg á því og fór ekki á fætur fyrr en ég var búin að hoppa og djöflast yfir því að við myndum ekki sjá sólarupprásina... hefði kannski átt að kíkja út áður þar sem mikill þokubakki lág yfir... Spólan alltaf aðeins á undan sjálfri sér!) og sigla meðfram þrepunum. Fundum okkur bátsmann og keyptum kerti til að fleyta á ánni eftir að sölustrákurinn hafði elt okkur alla leiðina... og borguðum auðvitað allt of mikið... prútthæfileikar mínir virðast ekki ætla að þróast sama hversu lengi ég dvel hérna... úff... Jæja, þrátt fyrir þokubakkann gátum við fylgst með fólkinu á bakkanum og vorum reyndar einstaklega heppin þar sem það var hátíð (merkilegt en satt) í gangi tileinkuð Shiva, eða Shivratri. Þokan varð bara til þess að skapa dularfulla stemningu, ómurinn af fólki að kyrja og hringja bjöllum urðu til þess að Spólan leiddi nú bara hugann að því hvort að himnaríki væri ekki bara svona. Leyfi myndunum nú bara að tala sínu máli.


SÖLUSTRÁKURINN EÐA NÆSTI DONALD TRUMP EFTIR VIÐSKIPTIN VIÐ MIG


BÁTSMAÐURINN SÍKÁTI... MEÐ UPPLÝSINGAR UM ALLAR BYGGINGARNAR Á REIÐUM HÖNDUM


HÉRNA ER ÞVOTTURINN BARINN EN EKKI HARÐFISKURINN


KONUR AÐ BAÐA SIG VIÐ ASSI GHAT


MENN AÐ BAÐA OG BIÐJA


HINDÚASIÐUR - LOVE ALL, SERVE ALL.... OG ÉG SEM HÉLT AÐ ÉG MYNDI FINNA PIZZA67 RÉTT HJÁ....

Á monsún tímabilinu hækkar vatnið í ánni svo mikið að ómögulegt er að ganga þrepin en annars er hægt að ganga næstum allar ghatirnar.


Í SÍÐUSTU MONSÚNTÍÐ NÁÐI VATNIÐ UPP AÐ NEÐSTU GLUGGUM HÚSANA SEM SJÁST Á MYNDINNI


UPPÁHALDIÐ MITT, HANUMAN GHAT, EÐA ÞREP APAGUÐSINS HANUMANS

Bátsmaðurinn setti okkur svo úr við aðalþrepin og við gengum í gegnum mannhafið til baka. Þar urðu á vegi okkar sölumenn (póstkort, blóm, kerti, frægð og frami... allt til sölu í Varanasi), poojarar (nokkurskonar prestar) sem vildu ólmir blessa fjölskyldu okkar og vini (og auðvitað tryggði Spólan sér þau kostakjör og borgaði litlar 100 rúpíur fyrir hamingju og öryggi fjölskyldu og vina (þið munið svo bara að þakka mér!!) og fékk að launum þriðja augað á milli hinna tveggja), fólk að biðja, fólk að baða sig, rakarar, sadhus (heilagir menn), ferðalangar, kýr, buffalóar, hundar og villisvín. Frekar áhugaverð blanda. Setningu dagsins átti hins vegar ungur póstkortasölumaður sem, þegar ég neitaði ítrekað að svo mikið sem líta á póstkortin hans, sagði “Oh, you break my heart!”. Úff... eins gott að ég var búin að borga fyrir syndir mínar og áframhaldandi hamingju...

Við skelltum okkur svo aftur seinna um daginn og fylgdumst með sólsetrinu. Þá reyndar sigldum við lengra uppeftir ánni en um morguninn eða að Manikarnika ghat sem er aðal brennslughat-in. Fyrr um daginn höfðum við orðið vitni að nokkurs konar líkfylgd í gegnum miðbæ Varanasi og niður að þrepunum en þar báru útlagar, eða doms, lík sveipuð litríkum klæðum á bambusbörum og kyrjuðu hátt. Eins og ég minntist á áður þá er það eftirsóknarvert að deyja í Varanasi. Fyrst er líkinu dýpt í ánna en það síðan sett á bálköst (hægt að velja úr nokkrum viðartegundum, þar sem sandalwood er dýrastur) þar sem búið er að vigta eldiviðinn mjög nákvæmleg til að reikna út kostnaðinn. Um 100 kg þarf til að brenna lík og tekur það um 2-3 klst. en brennslan fer fram á öllum tíma sólarhringsins. Öskunni er síðan dreift í ána og ættingjarnir sem fylgdust með fara og baða sig upp úr vatninu nokkru neðar á árbakkanum. Þessi ghat hafði orðið á vegi okkar fyrsta daginn í Varanasi en þá höfðum við það ekki í okkur að fylgjast með þrátt fyrir að “leiðsögumaður” hefði reynt mikið að draga okkur upp á þak á næsta húsi til að hafa gott útsýni (og heimta svo af okkur pening). Í bátsferðinni var hins vegar orðið dimmt þegar við komum að og margir bátar með ferðalöngum í kring þannig að við hinkruðum aðeins. Reyndar höfðum við það bæði á tilfinningunni að svona væri helvíti, ekkert sjáanlegt nema bálkestir á nokkrum þrepum, grímuklæddir menn að stjaka við trjádrumbunum í bálköstunum og ættingjar að bíða eftir því að lík þeirra nákomnu verði sett á bálið... ekki laust við að það hafi farið nokkur hrollur um okkur og mikið var mér létt þegar við loks sigldum í burtu...

Göturnar í gamla bænum í Varanasi eru þröngar og stundum lendir maður í klípu, ekki þannig að maður villist (maður endar einhvernveginn alltaf á árbakkanum), nei, frekar svona að það er ekki pláss fyrir mann. Rikshaw eru bannaðir en mótorhjól, hjól, fólk með söluvagna, krakkar í krikket og kýr og hundar taka mest allt plássið. Og ekki virðist ég búin að fá nóg af villtu dýrunum (sælla minninga frá Kerala) þar sem ég lent í smá vandræðum með kusugrey. Matteo hafði smokrað sér snyrtilega á milli 4 kúa sem höfðu komið sér vel fyrir í þröngu stræti en þegar ég ætlaði að leggja til atlögu sveiflaði ein snyrtilegum halanum og auðvitað hoppaði ég skrækjandi frá. Lagði upp í aðra tilraun stuttu seinna en einni leist nú ekki á að hleypa mér í gegn og rak hornið (sem var sem betur fer lítið) í lærið á mér.... hlaut nú ekki varanlegan skaða en ansi litríkan marblett...


SÖKUDÓLGURINN ER FREMST TIL HÆGRI Á MYNDINNI... MUNA AÐ FÁ MÉR NAUTASTEIK ÞEGAR ÉG KEM HEIM....


SÖLUMAÐUR Í GAMLA BÆNUM


TVEIR GÓÐIR Í HRÓKASAMRÆÐUM


Eitt aðaleinkenni Varanasi eru hjólarikshaw-arnir. Við prófuðum svoleiðis oftar en einu sinni en alltaf fékk ég móral þar sem tveir meðalstórir efróbubúar (hehehe pápi) eru nú ekki það léttasta sem hægt er að finna. Hjólamennirnir leggja metnað sinn í að hafa rikshawinn sem flottastan (lesist skrautlegastan) og svo er tvöfalda bjöllusystemið algjör snilld... pínu svona eins og hreindýra her á miðju sumri með þyt mótorfáka í undirtón... (æ nó... ein orðn pínu spiritual...)
Verð síðan að smella inn einni af ákaflega stoltum hjóla-rikshaw manni...


VERST AÐ HANN VAR EKKI MEÐ TVÖFALDA BJÖLLUSYSTEMIÐ

Já, vatnið í henni Ganga er ekki svo hreint enda Indverjar líklega ekki þeir bestu í umhverfisvernd. Hreinlæti skiptir hins vegar miklu máli í hindúasið og þeir baða sig samviskusamlega hvern einasta morgun. Þrátt fyrir að óhreinindi Ganga séu mikið í umræðunni virðist það ekki stoppa þá í að baða sig upp úr vatninu... og þvo þvottinn sinn... og bursta tennurnar... og baða buffalóana sína... jebbster... allt á sama staðnum!


ELSKA ALVEG NAUTNASVIPINN Á DÝRINU...

Þegar ég rölti til að taka myndir af buffalóunum (og varð næstum undir heilli hersingu af þeim, úff) hitti ég “eiganda” þeirra og spurði hann af hverju hann baðaði buffalóana... jú þeir urðu að vera hreinir (humm...) og hversu oft... jú auðvitað á hverjum degi (hvernig spyr ég!!!) og svo stökk hann út í á eftir og baðaði þá með sápu og strauk þeim öllum... og endaði svo á því að skrúbba sig sjálfan vel og vandlega.... ekki það að ég sé á móti fjósalykt, en samt....


SKRÚBBÍ-SKRÚBBÍ-SKRÚBB... OG ALLIR SVO SKÍNANDI HREINIR OG FÍNIR

Þar til næst....
Spólfríður.... dýrvitlaus...

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Incredible country

Nafnlaus sagði...

Fræðandi og skemmtilegur pistill að vanda. Ágætt að geta skroppið svona aðeins til Indlands í miðjum Svandísarfyrirlestri. Verst að þú ert farin að taka þér svipaðan tíma og Gímaldið í að skrifa færslur....
kv. Mjási

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þessa fróðlegu pistla, Varð bara að koma með smá komment á nautgripa þvottinn. Er það ekki augljóst að það verður að þvo nautgripina fyrst, það er þræla vinna að skrúbba kýr svo það er eðlilegt að þvo sér á eftir og ekki fer maður í skítuga garma eftir bað! Kær kveðja frá Tindum.

Nafnlaus sagði...

hahaha! ég sé nú alveg kýrnar í Laugardælum í anda ef það ætti að baða þær og skrúbba svona á hverjum degi... ég er ekki viss um að það væri svona nautnasvipur á þeim... en nauta-svipur kannski... (enda nautgripir) annars mætti eflaust venja þær á þetta eins og annað...! hmmm... kannski væri bara hægt að gera þetta að bissnes... kúabað... menn gætu bara komið með kýrnar og baðað þær... og svo gætu þær fengið nudd og svona... bara kúaspa... það mætti svo safna hlandinu úr þeim í brúsa og selja sem hármeðal fyrir fólk... skallavörn!! já ef maður væri nú bara með tvö spa á sama staðnum... humm... þetta er eitthvað til að athuga... ætla að viðra þessa hugmynd við bóndann á bænum...
Laugardælir spa - "í beljum erum við bestir"

kv. frænkutetur

Nafnlaus sagði...

Wow! I love your pics - they are sooooo beautiful:o)) Did you buy that candle? It´s very nice just to send them on the stream of the river... Hmmm, I miss India a lot... specialy the cows... a bit surprising to walk on the streets and don´t have any of them behind your back:o) You didn´t write about Varanasi in en, but it seems, it is your last big journey... enjoy it... it is the most emotional/funny/exciting/exhausting time there... Are you traveling alone or with sb?
Hmm, Loa... have a great time, take care and hope to see you in Prague soon!!!*
Z.

Nafnlaus sagði...

Hæ snúsan mín! Æðislega skemmtilegur pistill :0) Takk fyrir mig. I pay you back honey :0)Knús og koss frá Hillu.

Kristinn sagði...

Fínir pistlar hjá þér....gaman að lesa. Frábærar mydnir....mig langar til Indlands med myndavél!!...:=)