fimmtudagur, 6. desember 2007

Kvenlegheit par exelens

Held að ég hafi nú ekki almennilega farið í gegnum hvernig starfi mínu er háttað hérna úti. Ég bý sem sagt á skrifstofunni sem er staðsett í rólegu og frekar íburðarmiklu hverfi og stundum líður mér svona eins og ég sé komin til Ólafsvíkur, einstaka bíll sem keyrir framhjá og ómur frá skólalóð hérna í bakgarðinum. Á hverjum morgni er vaknað svona um 9 leytið, þegar skúringamaðurinn kemur, andköf tekin í kaldri sturtu og kroppurinn svo hitaður upp með chai sem er indverskt, sætt mjólkurte. Um 11 leytið kemur svo sjálfboðaliði að sækja mig og við förum “on field” sem þýðir að við heimsækjum þorp í nágrenninu, leitum uppi fatlað fólk, söfnum upplýsingum, ég geri mat og/eða veiti meðferð allt eftir því sem við á. Svo er hádegismatur á milli 2 og 3 og svo áfram vinna til um 6-7 leytið. Kvöldunum er svo eytt í félagsskapnum í herberginu góða!!! Nei djók..... er búin að kenna Khalidbhai (bossinum mínum) að spila rommý og hann malar mig reglulega... vinnur með svona 1000 stiga mun.... Svo er ég búin að fara tvisvar í bíó, auðvitað á Bollywood myndir... skil ekki neitt í neinu... en meira um þær myndir seinna....

Síðasta helgi byrjaði með látum. Á föstudaginn gerði ég víðreist um héraðið og fór alla leiðina til Bhuj (borið fram Búútssss) sem er “höfuðborg” Kutch. Ég fór “alein” í (lesist troðfullri) rútu en ferðalagið tekur um 1 klst. Að ferðast með rútu á Indlandi er bara gaman... sætin eru auðvitað alltaf allt of fá og farartækin of lítil miðað við fólksfjöldann en þar sem ég var eini hvítinginn var mér boðið sæti... sem ég þáði með þökkum. Hérna í gamla daga voru það alltaf einhverjar ægilegar skuttlur sem voru “rútustelpur” hjá HP á leiðinni Ólafsvík-Reykjavík en hér eru þetta aðallega gamlir og krumpaðir karlar. Þeir hafa einstaka hæfileika til að troða fólki inn og þegar manni finnst nú nóg komið hanga þeir hálfir út um hurðina og garga áfangastaðinn á fólk og troða ennþá fleirum inn! Fólkið stendur svo eins og sardínur í dós, vel uppraðað þannig að allt gólfpláss er nýtt. Er svo fegin að þurfa ekki að ferðast með farangur þessa leið!

Í Bhuj tók Samsudin á móti mér en hann er tiltölulega nýbyrjaður að vinna sem sjálfboðaliði hjá Action Aid. Tungumálavandamál voru mikil þann daginn skal ég segja ykkur en þetta reddaðist nú allt að lokum. Auðvitað byrjuðum við á að heimsækja vini og vandamenn og ákveða hvað og hvar yrði borðaður hádegismatur.
Systir Samsudins tók mér eins og löngu týndri systur, alls ekki nógu kvenlegri og ákvað því að gera eitthvað í málunum. Áður en ég gat nokkuð sagt var hún mætt með henna lit í plasti, búin að hertaka hægri hendina á mér og byrjuð að skreyta hann. Viddavaddavei!


Systir Samsudins skreytir lófann

Herlegheitin tóku svo um klst að þorna og á meðan fórum við og heimsóttum fleiri ættingja. Og svo fórum við í mat en fyrst þurfti auðvitað að skreyta vinstri lófann!! Í tilefni dagsins var kjúklingur. Held að á flestum stöðum sem ég kem þar er spurning nr. 3 ertu grænmetisæta eða ekki? Á því getur fólk áttað sig á trúmálum þar sem flestir hindúar eru grænmetisætur, múslimar borða ekki svínakjöt en kristnir allt sem hendi er næst! Öll fjölskyldan var heima þar sem föstudagur er hvíldardagur múslima og því var fjöldinn svipaður og góðum sunnudegi hjá ömmu og afa í sveitinni. Áður en við fórum svo af stað í vinnuna gaf móðir Samsudins mér armbönd, mjög falleg og fyrstu armböndin sem eru heil sem ég get komið á mínar stóru og kvenlegu hendur (vink, vink Siggi Már)!! Til að toppa kvenlegheitin var svo blómi komið fyrir í hárinu á mér. Um 8 leytið um kvöldið var ég orðin dauðuppgefin og ákvað að taka rútuna heim þrátt fyrir að hafa verið boðið margsinnis að gista og eyða helginni með fjölskyldu Samsudins.


Móðir og dóttir að elda


Ég og nýja fjölskyldan mín



Hendurnar á mér eftir daginn

Á sunnudagskvöldið var svo menningarkvöld í tilefni af alþjóðadegi fatlaðra, 3. desember. Vá, hvað það var gaman!!! Alls konar skemmtiatriði, söngur, eftirhermur, dans og gamanmál... aðallega verið að gera grín að mér og ég skildi auðvitað ekki neitt... heimski, hvíti útlendingurinn!!! Mér var margsinnis boðið að koma upp á svið og syngja, einn stakk meira að segja upp á “Barbie-girl” laginu en ég afþakkaði pent.....


Glergaurinn sýndi hvernig átti að sveifla sér og borða ljósaperu!

Í lokin dönsuðu svo allir saman, þjóðdansa frá Gujarat, sem aðallega eru dansaðir á 9 daga hátið sem nefnist Navratri og er haldin aðallega í norðurhéruðum landsins. Ég rétt missti af hátíðinni þar sem hún er alltaf nokkrum dögum á undan Diwali. Í staðinn fékk ég einkakennslu í dansi og uppskar mikinn hlátur og klapp... gaman, gaman, gaman!


Anilbhai hinn bleiki sýnir mér sporin


Spólan með íslensk tilþrif en Sushilaben dansar sem enginn sé morgundagurinn!
p.s. ef þið viljið læra pósuna þá verð ég með workshop þegar ég kem heim!!! Pápi tekur við skráningum og Simmi frændi sér um sönginn.....


Sushilaben, Loaben og Babubhai hvíla lúin bein


Loaben og Gomtiben


Á mánudaginn var síðan fundur þar sem sami hópur kom saman og ræddi málefni fatlaðra, fór í gegnum lagaákvæði sem tryggir þeim réttindi og settu saman lista um þau málefni þar sem réttindum fatlaðra er ábótavant. Allir borðuðu svo saman í lokin og skunduðu svo heim á leið.


Eldabuskinn og buskurnar


Maturinn framreiddur


Allir borða saman


Samstarfsfélagarnir; Sushila, Barat, Khalid. Jetha og Gomti


Hjón sem tóku þátt í deginum - bara elska dressin!!

Þeim þótti líka eitthvað vanta upp á kvenlegheitin, samstarfsfélögum mínum, því ég var dregin á markaðinn og látin kaupa mér efni í shalwar kamez sem er svona víðar-náttbuxur-kjóll-yfir-og-slæða-dress. Svo var skundað til sauma-“mannsins” og má ég sækja herlegheitin næsta mánudag.... og þá verð ég sko indversk!!

Eitt í lokin... er komin með nýtt nafn! Indverskt! Ja hérna á jólunum..... Hérna splæsir fólk ben (systir) fyrir aftan kvenkyns- og bhai fyrir aftan karlkynssamstarfsfólk sitt, vini og jafnvel eiginmenn og-konur. Þannig hef ég verið Loaben hingað til en tadadaaaa..... nýja nafnið er Bhuriben sem þýðir hvíta systir... mér finnst það ákaflega viðeigandi þar sem oftar en ekki heyri ég krakka hlaupa á eftir mér og kalla "Bhuri, bhuri!" ...hvað finnst ykkur?? Bíð spennt eftir athugasemdum! :o)

Yfir og út
Bhuriben.... áður þekkt sem Spólan (ji... er orðin eins og listamaðurinn sem áður var þekktur sem Prince....!!! Hahahhaa)

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég fæ reglulega skrifin þín Ólöf mín og hef gaman af að lesa þau Pabbi þinn sendir þau reglulega. Öfunda þig samt ekki af herbergisfélögunum en sé að þú hefur gaman af þessu öllu. Ég hugsa mikið til þín á hvejrum degi og bið Guð að geyma þig þarna úti. Bless amma Villa.

Nafnlaus sagði...

Það er með ólíkindum gaman að lesa þessa pistla þína Bhuriben mín, sjá hvernig líf, starf og leikur fólks er þarna. Myndirnar eru svo extra krydd á allt saman. Frábært. Kveðja, Pápi.

Nafnlaus sagði...

Hæ,Ólöf!
Gaman að lesa bloggið þitt.
Kveðja frá öllum á Tindum.

Nafnlaus sagði...

Það er alltaf jafn gaman að lesa bloggin þín, maður er kominn á staðinn í huganum!!
Það var mikið hugsað til þín í gær þegar bekkurinn hittist!!
Take care, Guðný

Nafnlaus sagði...

hmmm... líst ekkert á þessar skreytingar sem þú ert í þarna. Af fyrri reynslu þá værirðu alveg vís til leggja svona skreytingar fyrir þig og skreyta svo tærnar á mér á næsta íslandsdjammi.... Vona bara að þetta náist betur af en ofur-lím-naglalakkið gerði :p

Nafnlaus sagði...

sæl frænka.
þetta eru frábærir pistlar sem þú ert að senda okkur mörlöndum, lýsingarnar eru tær snilld. þegar ég les þetta þá upplifir maður staðinn í huganum og það er svo gaman hvað myndirnar segja manni mikið. þetta eru náttúrulega aðstæður sem maður getur ekki ímyndað sér að séu til..
en ég er mikið búinn að hugsa um matinn sem þú borðar þarna, hvað er hún ólöf frænka að borða í indlandi....? ekki er það kýrkjöt að minnsta kosti!!!!!
eins og ég sagði áðan;ég hlakka til næsta pistils og mynda því þetta er mjög sérstakt land sem þú ert í en engu að síður afar spennandi. bless í bili og farðu varlega elsku frænka. simmi kjöt.

Nafnlaus sagði...

Það er algert bíó að lesa commentin þín. Manni finnst maður hreinlega vera á svæðinu. kv, Lúsin

Nafnlaus sagði...

Hæ flottar á þér hendurnar. Hefurðu geta sett upp eithvað jólaskraut þarna hjá þér ég var að skreita hesthúsið í firradag, ertu ekki orðin sólbrún?
kv:Elín
ps:Þú verður að lofa pasa þig á villidírunum og blogga um það ef þú sérð sebrahest:-)

Nafnlaus sagði...

Hola Hola amiga! Gott að það er líf og fjör hjá þér mín kæra! Hafðu endalaust gaman áfram! Kveðja og knús Hilla.

Nafnlaus sagði...

dí ólöf, þú ert stórrrrrr... (myndir)
keep up blogging...
kv. einar sigurjóns

Nafnlaus sagði...

Það er svo gaman að lesa bloggið þitt, þú skrifar svo mikið og það er æðislegt að sjá svona margar myndir ;-) Annars líst mér vel á Bhuriben. Hvernig er það annars borið fram? Svo verður gaman að vita hvernig jóladagarnir líða hjá þér :o) Kv, Rannveig

Nafnlaus sagði...

Ættir að týna saman bloggin þín gamla og myndirnar og skella þessu í bók. Þetta eru góð skrif og er gott fyrir fólk að lesa-sérstaklega svona fyrir jólin þegar við hér heima keppumst við að spandera bleðlingum í veraldleg gæði til lífsfyllingar svo við getum verið glöð og ánægð um hátíðina. Ekki er þó annað að skilja á skrifunum þínum að hamingja þessa fólks sé ekkert minni en hér á Íslandi. Lykillinn að hamingju virðist vera sá að kunna að gleðjast yfir "litlu hlutunum" hvort sem maður býr á Íslandi og á þotu eða í Indlandi og á föt til að vera í.
Starf þitt þarna úti er göfugt og óeigingjarnt sem er sú Ólöf sem ég þekki.
Finnst svo að ættir að skrá þig í körfuboltalið staðarins-ert eins og Jói risi þarna á myndunum!!:))
Kveðja, Gímaldið

Nafnlaus sagði...

hey hey hey..... djö... minns var búin að skrifa fullt mikið og svo bara horfið. Ég og tölvur ...móðir lifandi ... en allavega þá ertu alveg að halda lífinu í mér .... ógó gaman að lesa bloggið þitt. Spólan mín - hvert á ég að senda jólakortið þitt í ár ????? bannað að segja ekki hægt ... er komin með
Ólöf Inga
Indland

dugir það ???? hehehe.....
láttu vita elskan svo þú fáir smá kveðju og knús í pósti
love Sprellan

Nafnlaus sagði...

Elsku Spólöf.

Það er svo gaman að lesa bloggið þitt, þú ert svo frábær penni, þetta verður allt ljóslifandi í huga manns þegar maður les þetta. Gott að heyra að þú hafir nóg fyrir stafni og að þér líði vel þarna. En ein spurning, ertu í strumpalandi? Fólkið er ekkert smá lítið þarna:) En svona Indverskur klæðnaður fer þér alveg rosalega vel, þú verður að koma með fullt af svona dóti heim. Jólaundirbúningurinn er á fullu hér og allt að verða kolvitlaust, maður veit ekki svona í alvöru talað hvað er í gangi sko, fólk bara missir það þegar jólin eru annars vegar. Allavega maður reynir að halda sönsum. Ég var að velta fyrir mér að senda þér jólakort, en af því að ég er alltaf svo tímanlega með allt þá verður það eiginlega að vera nýárskort híhíh. Það styttist í Kúbu og ég er að springa úr tilhlökkun. Æi ég sakna þín alveg ferlega krúsumús.....hlakka til að lesa næsta blogg.
Knús og kremja frá mér
Kolla Vala.
p.s. sendu mér hvert ég á að senda nýárskortið baby.

Nafnlaus sagði...

hey! this is Saori:-) your brother told me your blog.
It took me long to find this comment form lol. All Icelandic words confuses me!
by the way, I love your pictures. those are awesome!
I might go to India this year. I haven't decided the exact date though I really wanna go there since I saw your pictures. hope we can meet up in India!

keep in touch :) your brother knows my email address:-)