föstudagur, 16. nóvember 2007

Kerala

KOMMÚNISTAR Í KÓKOSHNETULANDI
Þá er ég mætt aftur til Gujarat eftir vikufrí (frí frá því að vera í fríi fyrir mig) í einu af syðstu fylkjum Indlands sem heitir Kerala. Eitt af því sem ég vissi ekki fyrr en stuttu áður en ég kom til Indlands var að hvert fylki hefur sitt fylkistungumál. Opinber tungumál í landinu eru 17, fyrir utan hindi og ensku, og draga þau nöfn sín oftast af fylkinu, t.d. í Gujarat talað gujarati. Í Kerala er talað Malayalam (eins hvort sem það er skrifað aftur á bak eða áfram!) og þýðir nafn fylkisins Kókoshnetuland (ker=kókoshneta, ala=land) sem á einstaklega vel við það þar sem pálmatré og þ.a.l. tilheyrandi kókoshnetur eru áberandi.
Héraðið spannar allt frá gullnum ströndum til fjalla og er þekkt fyrir landbúnað, þá aðallega krydd- og teframleiðslu (eitthvað sem ekki er efst í huga hins landbúnaðarsinnaða Íslendings þegar landbúnað ber á góma!!), og ómæld róleg-og viðkunnalegheit. Þetta er fylkið þar sem enginn er að flýta sér og allir heilsa ókunnugum.



Kerala er einnig þekkt fyrir að vera fyrsti staðurinn í heimi til að kjósa sér kommúnustastjórn og er oft rætt um það sem þann stað í landinu mest félagsleg þróun hefur orðið. Sem dæmi má nefna að 91% íbúanna eru læsir, ungbarnadauði er 1/5 af landsmeðaltali og lífslíkur eru í kringum 73 ár sem er 10 árum hærra en fyrir restina af landinu. Hins vegar eru tvær hliðar á flestum “fylkjum” en í Kerala er lítið um iðnaður (sem stuðlar að hreinna lofti) og skortur er á erlendum fjárfestingum þannig að margir eru þar atvinnulausir. Hins vegar er ferðamannaiðnaðurinn vaxandi og bendir það til betri tíma framundan.
(Okkur Zuzu, hinni tékknesku, fannst frekar fyndið að undir lok ferðalagsins lentum við í miðri kosningabaráttu kommúnistanna með tilheyrandi lokun á vegum og rauðum fánum með sigð og hamri. Zuza minntist þess að hafa þurft að bíða í 4 klst. eftir 4 appelsínum fyrir jól sem lítil stelpa og var því ekki alveg að skilja þetta!!)





KOKKUR OG KAKKALAKKAR
Við hófum ferðina á fimmtudagsmorgun áleiðis til Cochin sem er höfuðborg fylkisins. Þar gistum við nú bara eina nótt því strax morguninn eftir fórum við um borð í húsbát sem sigldi með okkur um vatnaleiðirnar (backwaters) en í mörgum ferðahandbókum er talað um þetta svæði sem einn af þeim 10 stöðum sem maður þarf að koma á í lífinu. Þetta eru margar ár og vötn sem renna saman í eitt og mynda þannig kerfi síkja, aðskilin frá sjónum af mjórri landræmu. Svolítið erfitt að útskýra hvernig þetta er og þess vegna læt ég kortið bara um það! :o) Á rigningartímanum er þarna ferskvatn en fyrir utan hann saltvatn. Við sigldum frá Ernakulam til Alleppey.



Okkur fannst við vera komnar í paradís..... ohhhh alveg dásamlegt... pálmatré svo langt sem augað eygði og kókoshnetur út um allt. Um borð voru ásamt okkur kokkur og tveir stýrimenn sem skiptust á að sitja í stafni og stýra eða sjá um vélina bakatil.







Kokkurinn, herra Samban, eldaði ofan í okkur 2 máltíðir á dag auk þess sem að bera fram morgunmat og ýmislegt snakk á milli mála.... hann var sérstaklega fróður í ayurveda fræðunum og notaði allskonar krydd í matinn sem var alveg ofsalega góður... okkur fannst eins og við værum vel fylltar aligæsir eftir hverja máltíð!





Á Indlandi borðar fólk með hægri hendinni og við þurftum að gjöra svo vel að fylgja þeirri reglu sem var reyndar bara mjög skemmtilegt! Hérna gildir sko ekki “Bannað að leika sér að matnum”!!! Og engir eru diskarnir.... bara notuð blöð bananaplöntunnar



Þegar kvölda tók var báturinn festur við nálægt tré og svo sátum við og horfðum á fiskimennina leggja netin og veiða flugfiska.
Það sem við höfðum hins vegar ekki gert okkur grein fyrir var að við vorum ekki einar í herbergi því þrátt fyrir að vera einu gestirnir á bátnum höfðum við heldur betur félagsskap á kvöldin í herberginu ykkar.... júbb, mikið rétt, það bjó nefnilega kakkalakkafjölskylda á baðherberginu en eins og þið vitið eru slíkar fjölskyldur frekar stórar... reyndar held ég að það hafi verið ættarmót hjá þessari og öllum hóað saman.... ekki svo gaman... við skulum bara segja sem svo að salernið var ekki mikið notað eftir kl. 18:00 og tannburstun geymd fram á morgun! Zuza var þó heldur kjarkmeiri en Spólan og sá um að klófesta Charlie, Frankie og Freddie sem allir fengu miðnætursundsprett. Það gleymdist hinsvegar að taka fjölskyldumynd en segir mér svo hugur um að Spólan eigi eftir að eiga frekari samskipti við fjölskylduna a tarna....

KRYDD
Við höfðum, eftir að við stigum frá borði, okkur til halds og trausts (og ekki veitti af vegna sjóriðu sem herjaði á okkur í nokkra daga á eftir þrátt fyrir að hafa verið á siglingu um spegilslétt “vötn”) leiðsögumann á bíl sem keyrði okkur upp í fjöllin frá “vötnunum”. Hann hafði skipulagt fyrir okkur 3 daga ferð upp til að sjá það merkilegasta.
Við byrjuðum á því að fara í kryddgarð (spice garden) en þeir eru út um allt í Kerala og þar getur maður fengið leiðsögn og keypt afurðirnar í lokin. Flestir þessara garða eru sk. ayurveda garðar en þar eru jurtirnar notaðar í lækningarskyni. Zuza fékk að bragða á blómi og laufi sem lækna átti magakveisu.... engan fann hún muninn þó en ætli hún hafi ekki þurft að innbyrgða meira en einn blómræfil til að áhrifin kæmu í ljós.



Spólan komst hinsvegar að því að karl faðir hennar gæti nú bráðum farið að hætta þessu pillubrasi sínu því að þarna voru plöntur sem læknuðu allt.... bara nefndu það... nýrnasteinar, sykursýki, hár blóþrýstingur, allt farið eftir nokkur blöð af hinum ýmsu plöntum.... hmmmm, ein ekki alveg fullvissuð um það!
Eftir kryddgarðinn tók síðan við 90 mínútna Ayurveda nudd (hættu að slefa Sprella!!!) á sérstakri nuddstofu. Þar er notuð sérstök olía í miklum mæli og með frekar áhugaverðum aðferðum, t.d fyrst byrjað á því að hella alveg gommu í hárið! Spólunni fannst nú nudddaman vera með óvenjugrófar hendur miðað við magn olíunnar sem notað var en komst að því seinna að í olíunni voru lítil sandkorn sem rispuðu húðina. Í lokin var maður svo bókstaflega lokaður inni í gufubaði þannig að höfuðið var það eina sem stóð upp úr! Já, áhugavert svo ekki sé meira sagt!

KATHAKALI
Eftir nuddið skuttluðum við okkur svo á Kathakali leiksýningu en það er fornt listform, upprunnið í Kerala á sama tíma og Shakespeare sat og skrifaði sín leikrit. Leikararnir túlka trúarlegar hindúasögur með dansi, augnhreyfingum, andlitsfettum og-grettum en þeim til halds og trausts eru söngvari og trommarar. Á trúarlegum hátíðum byrja herlegheitin um kl. 8 að kvöldi og standa fram á morgun. Við ákváðum nú bara að taka styttri útgáfuna eða um 30 mínútur (púff)!
Mest fúttið er samt að fylgjast með leikurunum setja upp “andlitið” en hver persóna er túlkuð með ákveðnum lit; þeir góðu eru grænir, konur og vondir eru appelsínugulir (skrítið að setja samasemmerki þar á milli!!), hvítir eru guðir og svartir.......







KRRREEEEIIIISÍ FÍLAR
Seinasta daginn keyrðum við um teplantekrur sem þekja flestar hlíðar og tókum nokkra “teklippara” tali. Efstu og skærustu blöð plantnanna eru klippt á 15 daga fresti og eru oft um 350 manns að vinna á sömu plantekrunni á sama tíma! Zuza er alveg búin að koma mér inn á chai sem er mjólkurblandað, kryddað og sætt te og indverjunum finnst það sko frekar fyndið þegar við biðjum um það!!





Síðasti hlutinn var síðan kannski eftirminnilegastur og ekki af góðu. Við erum búnar að vera að upplifa þann atburð aftur og aftur síðasliðna daga og hjartslátturinn eykst í hvert skipti og svitinn sprettur fram (mamma... ekkert vera að lesa lengra, ok?). Þannig er mál með vexti að í Kerala er mikið um villta (og einnig tamda) fíla. Þeir eru ekki á afmörkuðum svæðum og getur maður auðveldlega gengið um þau. Soni, leiðsögumaðurinn okkar, stoppaði á einum stað, fyrir framan merki sem sagði “Aðgangur bannaður” (No entry) og sagði okkur að koma og rölta um svæðið. Hummmm..... eitthvað var innsæið ekki alveg vaknað þann morguninn þannig að við röltum af stað. Á sama stað höfðu 5 indverjar stoppað sinn bíl og byrjað að fara inn á svæðið. Við eltum því í humátt. Eftir að hafa gengið svona 200m upp á hól komum við auga á 2 fullvaxna fíla með “kálf”.

Fílarnir, rétt eftir árásina. Þessi vinstra megin er sá seki!

Eftir að hafa heyrt söguna af Rúandafílnum tók ég strax eftir því að eyrun á fílunum vísuðu út og sagði að það væri kannski sniðugast að bakka bara. Þeir fóru líka að færa sig nær svo við bökkuðum og færðum okkur til á hólnum. Indverjarnir bökkuðu hins vegar en sneru svo við og fóru í áttina að þeim. Áður en við vitum af öskrar Soni á okkur að hlaupa og við heyrum þessi líka fílslæti. Indverjarnir koma allir hlaupandi og annar stóru fílanna á eftir þeim..... við hlaupum og hlaupum og fíllinn er eiginlega við hliðina á okkur en að elta einn af indverjunum, honum skrikar fótur og fíllinn ræðst á hann, heldur honum með rananum, skuttlar honum upp í loftið og trampar ofan á honum...... jiiii, hjartað á mér hamast bara og ég fæ gæsahúð við það að skrifa þetta!!!! Á meðan komumst við Zuza inn í bílinn og læsum að okkur. Fíllinn heldur áfram að misþyrma manninum en hættir og bakkar eftir að allir bílarnir sem voru komnir að staðnum byrja að flauta en maðurinn liggur eftir hreyfingarlaus á jörðinni. Félagar hans fara að honum og ná að drösla honum inn í bíl og fara með hann beint á sjúkrahús. Við sátum öll 3 inni í bílnum, hjartað á fullu, titruðum og skulfum og bara trúðum þessu ekki... og fílarnir svona 30m frá okkur (ennþá með eyrun út). Það tók okkur allan daginn að jafna okkur á þessu og ekki leið okkur betur í gær þegar Soni hringdi í okkur og sagði að maðurinn hefði dáið vegna áverkanna sem fíllinn olli honum. Bara eitt sem ég vil segja ykkur kæru lesendur..... það sem við lærðum af þessu er að maður þarf að bera virðingu fyrir villtum dýrum, læra að lesa merkin þeirra ef maður ætlar að elta þau og fylgja þeim leiðbeiningum sem gefnar eru.... skiltin eru sko sett upp af ástæðu!!!

Spólan er hinsvegar komin í öruggar hendur á lokaáfangastað, þ.e. Adipur, og er fyrsti vinnudagurinn á morgun.... lofa meiru þá!



Spólan – sem fílar ekki lengur fíla

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Du bliver nød til at skrive lidt på dansk til os aberøve som ik er så gode til islandsk...

Nafnlaus sagði...

Þetta hefur sannarlega verið viðburðarík vika og lán og lukka verið með ykkur. Spurning hvort þennan pistil þurfi ekki að ritskoða fyrir afa og ömmurnar!!! Kveðja pápi.

Nafnlaus sagði...

Úffff, ég er ekki alveg að fíla þessa frásögn!!! Fæ svona flashback frá Rúanda þó það hafi ekki verið jafn svakalegt og þessi upplifun. Þetta hefur samt verið ótrúlegt ævintýri. Mikið óskaplega er ég samt fegin að heyra að þið eruð komnar heilar heim. Kveðja, mamma.

Nafnlaus sagði...

Þetta var ansi hreint hressandi lesning í morgunsárið, er vel vöknuð eftir fílasöguna svo ekki sé meira sagt!! Þetta er nú meira ævintýrið sem þú ert komin í stelpa, vonandi gengur allt vel og njóttu hvers dags.
Bestu kveðjur,
Sibba sjúkraþjálfari

Nafnlaus sagði...

vá hvað þetta hljómar allt skemmtó og spennandi!!! Skil samt ekki alveg af hverju þið læstuð að ykkur... vissi ekki að fílar gætu opnað bílhurðir :) en eins og vitri maðurinn sagði, better safe than sorry

tótla sagði...

ok, ef ég skil þig rétt þá á maður að halda sig fjarri fílum sem eru með eyrun út í loftið? úff, þetta hefur verið skelfileg lífreynsla Ólöf mín, og ég skil vel að þú takir það nærri þér að verða vitni að þessu skelfilega slysi. Veit samt að þú ferð varlega og hef engar áhyggjur. Legg samt til að foreldrar þínir hætti hér með að lesa bloggið:)

Nafnlaus sagði...

hehe... ég vissi ekki að fílar á Indlandi væru svona fúlir! það ætti kannski að endurskoða íslenskuna og leifa þeim að vera fýlar með ypsilon... að minnsta kosti þeim sem eru svona fýlupokar!
Lofaðu mér bara að reita þá ekki til reiði elsku besta ofurfrænk!!!

knús, Ólöf

Nafnlaus sagði...

Vá!! Ég fæ nú bara hjartslátt og gæsahúð við að lesa þetta!!
Kveðja, Guðný

Berglind sagði...

shit... sammála, ég fékk bara smá hjartastopp við að lesa þetta. Ji minn... ég trúi því að ykkur sé vel brugðið

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki hissa þótt þú sért hætt að fíla fíla.

Þetta er allt eitt ævintýri, ekki búinn að lesa allt, en ætla að lesa meira. Bestu kveðjur og farðu varlega........áfram!
Knútur

Kristinn sagði...

Frábærar myndir!!!!! Verðum að fá að sjá fleiri myndir!! :-))

Kveðja frá Norge

Kiddi og co

Nafnlaus sagði...

Já komið sæl !!!!! Ólöf Inga - viltu fara varlega kringum margfættu og stóru dýrin þarna úti elsku barn. Ég sem hef alltaf elskað fíla og við sem knúsuðum þá í kaf á Thailandi og keyptum fílastyttur og allt. Tek þær niður....

knús Sprellan