sunnudagur, 18. nóvember 2007

Adipur

Þá er ég búin að vera í Adipur í 2 og hálfan dag..... og hananú! Líst nú bara ágætlega á þetta og fólkið hérna er mjög indælt. Hinsvegar finn ég mikið fyrir því að vera komin frá svæðum sem hafa einhverja ferðamenn og á svæði þar sem þeir eru sjaldséðir fuglar. Ég er eina hvíta manneskjan sem ég hef séð hérna og allir horfa á mann, pískra og kalla á eftir manni. Börnin sem ég hitti í gær voru hálf hrædd við mig í fyrstu en það var nú fljótt að breytast. Þetta er eiginlega orðið þannig að ég verð hissa í hvert skipti sem ég lít í spegilinn og sé bláeygða manneskju.... mér finnst þetta frekar fyndið á ekki styttri tíma!

Ferðalagið hingað var náttúrulega ævintýri eins og alltaf þegar ég virðist koma nálægt fólksflutningum, hvort sem það er á flugvöllum, í leigubílum eða með rútum. Búin að komast að því að á þessu ferðalagi mínu má ég búast við að vera bara alls ekki sótt..... allavega er betra að hafa það í huga þar sem það kemur endurtekið fyrir að ég þurfi að bíða mjög lengi eftir að vera (eða vera bara alls ekki) sótt. Ég tók næturrútu frá Ahmedabad til Adipur sem lagði af stað kl. 23 og átti að koma hingað kl. 6 um morgun. Hins vegar held ég að bílstjóri rútunnar hafi verið fyrrverandi Formúlu 1 bílstjóri þar sem hann svingaði pakkaðri rútunni á milli akreina og flutningabíla hvað eftir annað.... ef ég dottaði þá var það bara í svona 5-10 mínútur þar sem lætin voru þvílík! En allt gekk þetta nú vel og við vorum komin til Adipur kl. 5 um morguninn, s.s. klst. of snemma miðað við þá áætlun sem ég hafði fengið. Hummmm..... ég sendi Saguptu, sem vinnur hjá Action Aid, skilaboð um að ég væri komin.... hummm, ekkert gerist.... ennþá meira hummm... en í þetta skiptið var ég nú ekki eins nálægt því að ráðast á svefndrukknar kýrnar sem lágu við hliðina á mér og daginn sem ég lenti í Ahmedabad enda eru þær með mun stærri horn hérna úti í sveit og mér líst bara ekkert á þær stundum. Sagupta og maðurinn hennar komu svo að sækja mig kl. 6 og fylgdu mér hérna á skrifstofuna. Þetta bjargast auðvitað alltaf á endanum.

Ég bý ss. á skrifstofu samtakanna sem ég vinn fyrir en þau hafa aðsetur í útjaðri Adipur í íbúðahverfi. Þetta eru tvær íbúðir, hvor um sig á 2 hæðum, ég sef á efri hæðinni og á þeirri neðri er skrifstofan. Hins vegar eru allir nema einn starfsmaður í fríi vegna Diwali hátíðarinnar og starfsemin því í lágmarki. Ég er því t.d. alein í dag hérna.... sem er líka bara ágætt.

Hún Sagupta sem tók á móti mér hérna er búin að vera alveg sérstaklega indæl og hjálpleg. Við erum búnar að ræða mikið saman, um trúmál, stöðu fatlaðra og fátækra, veður og bara allt þar á milli. Hún er múslimi, gift og á von á sínu fyrsta barni. Maðurinn hennar hefur komið með okkur í kvöldmat og hann er sérstaklega áhugasamur um Ísland og spyr og spyr.... hef nú bara reglulega gaman að því.

Á föstudaginn, sama dag og ég kom, hitti ég 3 sjálfboðaliða sem vinna við það að fara í heimsóknir til fólks sem er fatlað eða mjög fátækt, spjalla við það og vinna í réttindamálum fyrir það. Í gær fór ég svo með einum þeirra, Jay, til Anjar í heimsóknir og spjallaði við fólkið, auðvitað með hans hjálp, þar sem fæstir tala ensku hérna og ég er nú ekki sérlega sleip í gujarati. Auðvitað varð að sýna útlendinginn fyrst þannig að hann fór með mig heim til sín þar sem mér var boðið upp á chai á meðan fjölskyldan, vinir og nágrannar virtu mig fyrir sér. Eftir það fórum í mjög fátækt þorp, en þar sjá samtökin um að gefa börnunum orkuríka máltíð einu sinni á dag þannig að þar var mikið líf og fjör. Þar hitti ég líka eina unga fatlaða stelpu og ætla að fá að kíkja til hennar aftur seinna í vikunni. Á meðan ég fékk upplýsingar um hana stóðu svona 20-30 börn og fullorðnir og horfðu á..... frekar skrítið... svo þurfti að taka mynd af mér með öllum.... æi þetta var nú frekar furðulegt en hananú... þetta er víst svona þegar maður kemur frá annarri plánetu.....

Hádegismat fengum við okkur heima hjá Jay en hann býr ásamt konunni sinni, foreldrum, bróður, mágkonu og tveimur börnum þeirra í litlu húsi í Anjar sem er í 11km fjarlægð frá Adipur. Skemmtileg upplifun það!! Borðað á gólfinu í eldhúsinu og allir auðvitað horfa á skrítna útlendinginn sem veit ekki hvað á að borða með hverju og notar stundum vinstri höndina vegna samhæfingarvandamála..... stórfyndið allt saman... þau hlógu allavega og pískruðu mikið! Eftir hádegismat var svo dregnir fram DVD diskar með brúðkaupi Jay og konunnar hans, sem var í fyrra, og allir söfnuðust saman fyrir framan sjónvarpið og horfðu á..... áhugavert svo ekki meira sé sagt.... helda að ég hafi aldrei séð brúðina brosa á öllum þremur diskunum...

Eftir brúðkaupsáhorf heimsóttum við líka konu og tvo bræður sem öll höfðu hlotið mænuskaða í jarðskjálftanum sem varð hérna 2001. Aðstæðurnar eru auðvitað öðruvísi en við eigum að venjast að heiman, hjólastólarnir gamlir og klunnalegir, fólk upp á fjölskyldu sína komið til að lifa en samt kom mér á óvart hvað aðstæðurnar eru samt mun betri en ég bjóst við. Þetta verður nú bara gaman.... :o)

Gamanið byrjar svo fyrir alvöru á morgun.....

Vona að þið sjáið út úr snjónum heima.....

Knús og karrí
Spóla

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ elska! Vá Ólöf þetta er nú aldeilis ævintýri! Fílasagan,svakalegt! Elsku skinnið mitt farðu varlega :0)

Nafnlaus sagði...

Sæl dúllan mín, gaman að fylgjast með ævintýrum þínum.
Allavega vitum við núna að það fíla ekki allir fílar menn :-) við höfum ekki góða reynslu af þeim.
Mundu bara hvað það þykir mörgum vænt um þig og farðu nú varlega, þú ert ekki lengur í því verndaða umhverfi sem þú þekkir.
Bestu kveðjur frá öllum, knús og miljón kossar, Bára

Nafnlaus sagði...

Ég stytti söguna af fúlu fílunum svolítið áður en ég læt afa og ömmu hafa hana... svona til að fyrirbyggja miklar svefnraskanir... en mér heyrist svona þess utan þetta vera gott umhverfi sem þú ert í og vinalegt fólk í kring um þig...
veit samt ekki alveg hversu hamingjusöm hún er, brúðurin... ég hélt nú að það mætti amk fá smá broskiprur í munnvikin...
ég sekk svo gjörsamlega inn í þennan heim þinn, mér finnst þetta besta lesning... alvöru ævintýraheimur... jólabækur hvað?!?!
og svo er aðalpersónan líka svo rosalega fyndin og skemmtileg!!!
annars er allt gott að frétta í sveitinni.. stjörnubjart kvöld eftir kvöld... þau gömlu eru eldspræk og minns á fullu.. eins og venjulega.. (kippir í kynið...) það biðja allir ofsa ofsa vel að heilsa!
...mundu bara að okkur þykir alveg óskaplega vænt um þessa bláeygu sem þú sérð í speglinum!! passaðu upp á hana! :O)

knús og kremjur og karrígulir sólskinskossar
þín, Ólöf frænka

Nafnlaus sagði...

Rosalega spennandi allt saman hjá þér, það verður gaman að heyra hvernig verður svo í vinnunni hjá þér! Farðu varlega!! Kv, Guðný

Nafnlaus sagði...

Stadig ik noget som en aparass som mig kan forstå... Jeg ved godt at jeg er ret god til islandsk, men jeg er altså ik så god at jeg kan forstå det hele!! haha

Berglind sagði...

snjór? hvað er það?

Guðný sagði...

Gleymi að segja það áðan Ólöf að myndirnar þínar eru ekkert smá skemmtilegar... maður er bara mættur á staðinn í huganum. Rosa flottar!!!!
Kv, Guðný

Nafnlaus sagði...

Hæ Ólöf mín.

Mikið er gaman að lesa bloggið þitt. Þú sýnir mikinn kjark og þor og maður er montinn af vinkonu sinni. Ævintýrin hrannast upp með hverjum deginum og mikið er lagt inn á Gleðibankann. Það er vel, mín kæra.
Farðu nú varlega og ég mun hugsa til þín og halda áfram að telja þig með í bænum mínum á kvöldin.
Kram
Ída

Nafnlaus sagði...

sæl frænka.
var að fá bloggið þitt og þá er ekki aftur snúið.
simmi frændi

Jónas sagði...

Ég fæ alveg fiðring í magann mér finnst þetta svo skemmtilegt. Væri alveg til í að vera kominn aftur út. En mikið ofboðslega er fílssagan hræðileg! Úff!

Gangi þér alveg ofboðslega vel, borðaðu nóg af „dal“ því þá verðurðu sterk!

aiesec kveðjur...

Nafnlaus sagði...

sæl frænka, sá eini sanni hér.(Simmi)

Mikið er gaman að lesa bloggið þitt, fílasagan er samt svakaleg, en þetta verður vonandi bara betra þegar lengra líður. Hlakka til að fylgjast með þér í indverjalandi.
þinn frændi, simmi kjöt.

ps: hvernig verður með hangikjötið á jólunum?

Nafnlaus sagði...

Sæl kæra frænka

Gaman að fá að fylgjast með þér. Þvílíkt ævintýri, njóttu þess en farðu varlega!

Bestu kveðjur
Vilborg junior og co

Kristinn sagði...

Frábært aðgeta fylgst með þér frænka. Gangi þér vel og við hlökkum til að heyra meira af ævintýrum þínum!

Kveðja frá Norge

Kiddi og co